Heilbrigði er ekki mælt í kílóafjölda

Ég held að það veiti ekkert af að minna á að heilbrigður líkami er ekki mældur í kílóum. Þeir sem eru yfir kjörþyngd geta vel verið í miklu betra formi en þeir sem eru í kjörþyngd og formið hefur meiri áhrif á heilsuna en kílóafjöldinn. En hvort sem þú ert í góðu eða slæmu formi, í kjörþyngd, undirþyngd eða yfirþyngd:

1. Hugsaðu og talaðu fallega um líkamann þinn og lærðu að meta það að líkaminn er kraftaverk. Það er sérstaklega mikilvægt að foreldrar tali ekki illa um líkamann sinn og holdafar í viðurvisst barna sinna. 

2. Gerðu það upp við þig hvað heilbrigði og hreysti þýðir í þínum huga. Það að vera sáttur við líkama sinn í hvaða formi sem hann er þýðir ekki að okkur sé sama um heilsuna, þvert á móti! Góð heilsa samanstendur af mörgum ólíkum þáttum andlegum og líkamlegum og þyngdin er bara smá brot af því. 

3. Láttu aðra vita að þú stundir hreyfinu vegna þess að þér þykir vænt um líkama þinn og heilsu en ekki vegna þess að þú þurfir umfram allt að léttast. Stundaðu hreyfingu af því að hún eykur vellíðan, er skemmtileg, dregur úr kvíða og streitu og minnkar líkur á ýmsum sjúkdómum.